Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 347  —  146. mál.




Nefndarálit



um frv. til leiklistarlaga.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Frumvarp til leiklistarlaga var lagt fram á 122. þingi en var ekki afgreitt þá vegna mikillar gagnrýni sem fram kom á ákveðna efnisþætti málsins. Frumvarp sama efnis var lagt fram í upphafi þessa þings og hefur nú verið til meðferðar í menntamálanefnd. Nokkrar breytingar urðu á málinu milli þinga og víðtækara samráð var haft um meðferð þess en áður. Gagnrýnis­atriðum hefur því fækkað. Þó standa enn eftir atriði sem minni hlutinn telur ástæðu til að vekja athygli á eða gagnrýna og flytja breytingartillögur við.
    Minni hlutinn telur að ekki hafi verið rökstutt nægjanlega að lög um Þjóðleikhús og leik­listarlög skuli felld saman í ein leiklistarlög. Það er í mótsögn við þá aðferð sem viðhöfð er við t.d. löggjöf um háskóla þar sem sett eru almenn lög um háskóla og síðan sérlög um hvern skóla eftir því sem við á. Sama virðist eiga við um útvarp. Með einungis einum leiklistarlög­um fær Þjóðleikhúsið nýjan ramma um starfsemi sína í þrettán greinum, en öll önnur leik­listarstarfsemi í landinu verður sett undir sama hatt í þremur greinum. Samkvæmt því verður einungis eitt leikhús í landinu viðurkennt í leiklistarlögum, Þjóðleikhúsið.
    Aðalgagnrýnin á frumvarpið sjálft hefur hins vegar beinst að 6. og 16. gr. þess. Í 6. gr. er fjallað um ráðningu þjóðleikhússtjóra og sú breyting gerð frá gildandi lögum að gert er mögulegt að þjóðleikhússtjóri sitji lengur en tvö ráðningartímabil. Minni hlutinn hefur farið yfir álitaefni sem þessu tengjast og skilur þá gagnrýni sem fram er sett, enda var það lengi baráttumál leiklistarfólks að sett yrði í lög að ráðningartími þjóðleikhússtjóra yrði takmark­aður við tvö tímabil. Minni hlutinn vill hins vegar líta til þess að umræða og vinnubrögð hafa breyst þannig á undanförnum árum að rétt er að láta reyna á ákvæði frumvarpsins. Umræða og gagnrýni er mun opnari nú en áður og í ljósi þess má ætla að þjóðleikhússtjóra verði ekki sætt frekar en öðrum sem ekki standast væntingar eða kröfur samtímans. Minni hlutinn styð­ur hins vegar breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar um kröfur um listmenntun þjóðleik­hússtjóra.
    Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á 16. gr. frumvarpsins beinist að því annars vegar að grónar leiklistarstofnanir skuli ekki áfram eiga sess í leiklistarlögum og hins vegar að ekki skuli vera gert ráð fyrir faglegu mati þegar gerðir eru samningar við rekstraraðila leiklistar­stofnana eða félaga. Við þessari gagnrýni bregst minni hlutinn með breytingartillögu við greinina þar sem ríkisvaldið er skuldbundið ákveðnum listastofnunum og kveðið er á um að fram fari faglegt mat þegar menntamálaráðherra gerir samninga við rekstraraðila annarra leiklistarstofnana. Í gildandi lögum segir að Alþingi veiti árlega fé til stuðnings tiltekinnar leiklistarstarfsemi. Minni hlutinn telur að vilji Alþingis standi enn til að styðja við grónar og mikilvægar stofnanir eins og Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Reykjavíkur, Bandalag íslenskra leikfélaga, Íslenska dansflokkinn og Íslensku óperuna og að sá vilji eigi að koma fram í leiklistarlögum en ekki vera kominn undir geðþótta framkvæmdarvaldsins hverju sinni.
    Svavar Gestsson áheyrnarfulltrúi í menntamálanefnd er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 25. nóv. 1998.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Guðný Guðbjörnsdóttir.